Um landsdóm
Landsdómur er sérdómstóll sem fjallar um ætluð brot ráðherra í embætti að mati Alþingis. Í 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er kveðið á um að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og að ráðherraábyrgð sé ákveðin með lögum. Alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og að Landsdómur dæmi um þau mál.
Um lagalega ábyrgð ráðherra er nánar fjallað í lögum nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð en ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi taka einnig til ráðherra eftir því sem við getur átt. Ef ráðherra gerist sekur um brot utan embættis síns taka ráðherraábyrgðarlögin ekki til þeirra brota. Í lögunum er m.a. mælt fyrir um efnisþætti ráðherrábyrgðar, skilyrði sakfellingar og viðurlög, en brot á lögunum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Brotum ráðherra gegn lögum um ráðherraábyrgð er skipað í þrjá flokka, þ.e. stjórnarskrárbrot, brot á öðrum landslögum og brot á góðri ráðsmennsku. Brotin geta bæði verið svokölluð framkvæmdarbrot og vanrækslubrot.
Um Landsdóm og meðferð mála fyrir dómstólnum er fjallað í lögum nr. 3/1963. Að því leyti sem eigi er á annan veg mælt í lögunum skal, eftir því sem við á, beita ákvæðum laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um meðferð mála fyrir Landsdómi. Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra er gerð með þingsályktun og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í ályktunni. Sókn málsins er þá bundin við þau kæruatriði. Alþingi kýs mann í starf saksóknara til að sækja málið af sinni hendi og annan til vara. Alþingi kýs einnig fimm manna þingnefnd til þess að fylgjast með málinu og vera saksóknara til aðstoðar.
Í Landsdómi eiga sæti 15 dómarar en af þeim eru átta kosnir af Alþingi til sex ára í senn. Einnig sitja í dómi þeir fimm dómarar Hæstaréttar sem hafa átt þar lengst sæti, dómstjórinn í Reykjavík og prófessorinn í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands. Forseti Hæstaréttar er sjálfkjörinn forseti Landsdóms.
Þann 28. september 2010 samþykkti Alþingi þingsályktun um málshöfðun gegn Geir Hilmari Haarde fyrrverandi forsætisráherra fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var Geir gefið að sök að hafa framið brotin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár. Vegna meðferðar málsins kom Landsdómur saman í fyrsta sinn þriðjudaginn 8. mars 2011. Aðalmeðferð málsins hófst 5. mars 2012 og var það dómtekið 16. sama mánaðar.